Þátttakendur Fjölnis á Meistaramóti Skákskóla Íslands fóru mikinn og sigruðu í báðum flokkum á afarsterku Meistaramóti Skákskóla Íslands sem haldið var helgina 29. – 31. maí. Jafnaldrarnir og félagarnir Dagur Ragnarsson og Jón Trausti Harðarson unnu í flokki stigahærri skákmanna og sýndu þar yfirburði. Þeir hlutu 5,5 vinninga af 6 mögulegum, gerðu innbyrðis jafntefli og unnu aðrar skákir sínar. Þeir verða að heyja úrslitaeinvígi um meistaratitilinn. Í fyrra vann Dagur meistaramótið.
Í stiglægri flokk sigraði Fjölnisskákmaðurinn Jóhann Arnar Finnsson eftir afar jafna og spennandi keppni. Hann hlaut 4 vinninga og tapaði engri skák ekki frekar en félagar hans í efri flokk. Jóhann Arnar vann nýlega Skákmót Rimaskóla 2015 og er í skáksveit Rimaskóla sem teflir á NM grunnskólasveita í Danmörku í haust. Það voru sex börn og unglingar sem tóku þátt í Meistaramótinu frá Fjölni og árangurinn því einstaklega góður.
Verðlaunin á mótinu eru glæsileg og eftirsóknarverð meðal skákmanna 20 ára og yngri, ókeypis flugferð og peningafjárhæð.
Þessir þrír skákkappar unnu sér allir inn utanlandsferð á Meistaramótinu og verða ábyggilega ekki í vandræðum með að finna sterk skákmót erlendis til þátttöku í.