Handknattleiksdeild Fjölnis ætlar að senda meistaraflokk kvenna til keppni á Íslandsmótinu keppnistímabilið 2015-2016, eða eftir hálft annað ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem deildin sendi frá sér í dag.
Haldinn var fundur 9. janúar með öllum foreldrum og leikmönnum í 3. og 4. flokki kvenna en það eru stúlkur fæddar árin 1995 til 1999. Þar var kynnt framtíðarsýn deildarinnar, „Fjölnir 2016“ og samningar við leikmenn voru undirritaðir.
Í tilkynningunni segir:
Í stuttu máli þá gengur verkefnið út á að tímabilið 2015-2016 mun handknattleiksdeild Fjölnis senda til keppnis samkeppnishæfan meistaraflokk byggðan á uppöldum og efnilegum leikmönnum. Þetta verkefni er samstarf deildarinnar við leikmenn og foreldra þar sem unnið er út frá fyrra verkefni “Fjölnir 2014”, sem hefur haldið utan um karlastarfið síðustu misseri.
Allir þeir leikmenn eða 28 talsins sem sátu fundinn undirrituðu samning og vel gekk að fá foreldra í nefndir. Stjórnin lagði gríðarlega áherslu á að fá stuðning foreldra, enda verkefni sem þetta ógerlegt án þeirra. Við erum því gríðarlega ánægð að tilkynna það að “Fjölnir 2016” er komið á fulla ferð og mikill hugur er í deildinni, stelpunum og foreldrum. Stelpurnar hafa verið að ná góðum árangri á tímabilinu og því verður gaman að fylgja eftir þessu frábæra verkefni.