Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Grafarvogsprestskalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Skipað er í embættið frá 1. september 2016 til fimm ára.
Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Grafarvogsprestskalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Skipað er í embættið frá 1. september 2016 til fimm ára.
Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2016 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.
Í Grafarvogsprestakalli er ein sókn, Grafarvogssókn, með rúmlega 18.000 íbúa og eina kirkju, Grafarvogskirkju, þar sem jafnframt er að finna safnaðarheimili kirkjunnar og skrifstofu prestanna sem eru þrír auk sóknarprestsins. Til viðbótar við starfsstöð safnaðarins í Grafarvogskirkju er kirkjuselið í Spöng þar sem fram fer fjölbreytt starf yfir vetrartímann og prestarnir hafa reglubundna viðveru.
Grafarvogsprestakall er á samstarfssvæði með Grafarholtsprestakalli og Árbæjarprestakalli.
Í Grafarvogsprestakalli fer fram fjölbreytt helgihald sem er í stöðugri þróun, ásamt blómlegu barna- og æskulýðsstarfi og starfi á meðal eldri borgara. Margskonar hópa- og fræðslustarf fer fram og mikil eftirspurn er eftir sálgæsluþjónustu presta safnaðarins.
Vísað er til þarfagreiningar Grafarvogssóknar varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni. Þá er bent á vef Grafarvogssóknar www.grafarvogskirkja.is
Matsnefnd um hæfni til prestsembættis, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta mun starfa við mat á umsækjendum um embætti prests í Grafarvogsprestakalli.
Umsækjendur geri skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun sinni, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.
Umsækjendum ber að skila greinargerð að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.
Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.
Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar.
Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.
Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu, hjá sóknarpresti og prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis eystra.
Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis 8. ágúst 2016.
Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is
Þarfagreining Grafarvogssóknar júní 2016
Grafarvogssókn er eina sóknin í Grafarvogsprestakalli og jafnframt fjölmennasta sókn á Íslandi. Íbúar voru 17.865 þann 1. des. sl. og þar af eru um 74,4% með aðild að Þjóðkirkjunni. Sóknin tilheyrir Reykjarvíkurprófastsdæmi eystra og er á samstarfssvæði Gamla Gufuness, ásamt Árbæjarprestakalli og Grafarholtsprestakalli.
Grafarvogi má skipta í átta hverfi með fjórtán leikskóla, sex grunnskóla og einn fjölbrautaskóla. Í Grafarvogi er bæði hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara og ýmiskonar sambýli. Sóknarbörnin eru 13.297 og er aldursskipting þeirra sem hér segir:
Undir grunnskólaaldri | 794 |
Á grunnskólaaldri | 1.812 |
Á framhaldsskólaaldri | 861 |
20 til 34 ára | 2.512 |
35 til 64 ára | 5.428 |
65 ára og eldri | 1.890 |
Í söfnuðinum þjóna fjórir prestar, tveir organistar, æskulýðsfulltrúi, tveir kirkjuverðir, ritari og ræstitæknir ásamt fjölda sjálfboðaliða í sóknarnefnd, safnaðarfélagi, messuþjónastarfi og fleiru.
Söfnuðurinn hefur tvær starfsstöðvar, Grafarvogskirkju og kirkjuselið í Spöng. Yfir vetrar-tímann eru guðsþjónustur og sunnudagaskólar á báðum stöðum, fermingarfræðsla og barnastarf.
Prestar eru allir með skrifstofuaðstöðu í Grafarvogskirkju, en einnig er gert ráð fyrir reglulegri viðveru presta í kirkjuseli.
Í Grafarvogssöfnuði er fjölbreytt helgihald og mikið um athafnir. Þar er blómlegt barna-, æskulýðs- og eldriborgarastarf ásamt ýmiskonar hópa- og fræðslustarfi. Kórar safnaðarins eru nú þrír talsins. Um það bil 200 börn fermast í Grafarvogssöfnuði á hverju ári og því setur fermingarstarfið mikinn svip á starfið í kirkjunni og guðsþjónustuhaldið.
Á árinu 2015 var fjöldi kirkjulegra athafna í prestakallinu sem hér segir:
Messur og guðsþjónustur | 98 |
Barnaguðsþjónustur | 57 |
Aðrar helgistundir | 170 |
Skírðir | 158 |
Fermdir | 227 |
Giftingar | 33 |
Útfarir | 78 |
Í ljósi þessa alls og með hliðsjón af stefnumótun safnaðarins, þar sem m.a. er stefnt að eflingu starfs með ungu fólki, er lögð áhersla á áhuga umsækjenda á safnaðaruppbyggingu meðal ungs fólks. Þar verður sérstaklega tekið tillit til áhuga og þekkingar á notkun samfélagsmiðla ásamt reynslu og þekkingu á fermingarfræðslu og öðru fjölbreyttu starfi með yngra fólki. Gerð verður krafa um að umsækjendur hafi reynslu af samstarfi og samvinnu og geti sýnt lipurð í samskiptum þar sem viðkomandi prestur verður hluti af teymi fjögurra presta auk annars starfsfólks. Gott er að umsækjendur hafi reynslu og áhuga á sálgæslu þar sem mikil eftirspurn er eftir sálgæslu presta í söfnuðinum. Að lokum er áhersla lögð á að umsækjendur hafi áhuga á fjölbreytni í helgihaldi, litúrgíu og safnaðarstarfi, þar sem bæði helgihald og safnaðarstarf þarfnast stöðugrar þróunar og endurskoðunar í svo stórum söfnuði og því mikilvægt að bjóða uppá fjölbreytni í öllu starfi.
Styrkleiki safnaðarins er m.a. fólginn í gríðarlegum mannauði bæði hvað varðar starfslið og sjálfboðaliða. Barnastarf, æskulýðsstarf og kóralíf hefur frá upphafi verið blómlegt og gott ásamt starfi með eldriborgurum, helgihaldi, sálgæslu og ýmsu hópa- og fræðslustarfi, m.a. með syrgjendum og fráskildu fólki. Einnig er mikill styrkur fólginn í þeim fjölda fermingarbarna sem hér fermast á ári hverju og í góðri kirkjusókn. Staða kirkjunnar hefur einnig verið nokkuð sterk í hverfinu.
Veikleikar safnaðarins í dag felast fyrst og fremst í því, að undanfarið hefur fækkað í Þjóð-kirkjunni og viðhorfið til hennar breyst hratt. Erfiðlegar gengur að ná til grunnskólabarna með upplýsingar um starf kirkjunnar en áður var og kirkjan er ekki jafn sjálfsagður þátttakandi í því sem er að gerast í hverfinu. Fermingarbörnum hefur fækkað nokkuð þó enn séu þau þó í mjög góðu hlutfalli við hlutfall þjóðkirkjumeðlima í hverfinu. Einnig hefur nokkuð fækkað í eldriborgarastarfi safnaðarins á sama tíma og félagsstarf á vegum Félags eldriborgara í hverfinu hefur aukist. Þetta hefur m.a. orðið með tilkomu nýrrar félagsmiðstöðvar eldri-borgara, þar sem kirkjan er reyndar einnig með starfsstöð. Þá hefur fjárhagsstaðan versnað nokkuð frá 2008.
Helstu áherslur sóknarnefndar næstu fimm árin verða að efla starf með bæði yngra- og eldra fólki í sókninni. Þetta verður gert m.a. með ríkari áherslu á stefnumótun safnaðarins og fjölbreytni í safnaðarstarfi og helgihaldi. Á sama tíma verður lögð enn ríkari áhersla á samvinnu og samstarf innan samstarfs svæðis og prófastsdæmis en verið hefur.
Biskupsstofa notar kerfið Rada.is frá Advania fyrir rafrænar umsóknir.
Umsækjandi þarf að samþykkja notkunarskilmála kerfisins, sem eru almennir skilmálar vegna notkunar á hugbúnaði.
Umsækjandi þarf ekki að stofna aðgang að kerfinu.