Þjónusta við grenndargáma í Reykjavík er í útboði og er stefnt að því að nýtt og betra kerfi taki við í febrúar 2016. Breytingar verða á söfnunargámum frá 1. september og því mögulegar raskanir á þjónustu meðan verið er að skipta út gámum.
Nýja grenndargámakerfið, sem tekur við í febrúar, byggir á stærri gámum og auknum flokkunarmöguleikum þar sem gámar fyrir glerumbúðir munu bætast við á hluta grenndarstöðvanna. Á stærstu grenndarstöðvunum verður því hægt að flokka pappír, plastumbúðir, glerumbúðir, föt og klæði, dósir og flöskur.
Fatagámar eru á vegum Rauða kross Íslands og dósasöfnun er í höndum Skátanna, en þessir gámar eru ekki á öllum grenndarstöðvum.
Söfnun á glerumbúðum á grenndarstöðvum er liður í að auka endurvinnslu á höfuðborgarsvæðinu en SORPA stefnir að því að ná yfir 95% endurnýtingarhlutfalli úrgangs frá heimilum á svæðinu á næstu árum.