Á föstudag býður borgarstjóri til opins málþings í Ráðhúsi Reykjavíkur um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni. Kynnt verður samstarf í húsnæðismálum, sem og áherslur Reykjavíkurborgar til að mæta óskum íbúa og þörf fyrir húsnæði.
Dregin verður upp heildstæð mynd af framkvæmdum og framkvæmdaáformum á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Áhersla verður lögð á samþykkt verkefni og framkvæmdir sem eru nýlega hafnar, en einnig verður gefin innsýn í verkefni á undirbúningsstigi.
Er þörf fyrir meiri fjárfestingu?
Á málþinginu verður kynnt ný greining á fasteignamarkaði sem Capacent vann fyrir Reykjavíkurborg. Kannað var hverjar væntingar landmenn hafa til framtíðarbúsetu og á grundvelli þeirra er dregið saman yfirlit yfir hverjar húsnæðisóskir og þarfir þeirra eru skipt upp eftir aldurhópum. Meðal þess sem kemur fram er að flestir búast við því að næsta húsnæði þeirra verði 91 – 120 fermetra stórt með tveimur svefnherbergjum.
Í greiningunni er lagt mat á stöðu eftirspurnar og framboðs eftir húsnæði. Sérstaklega er fjallað um stöðu leigumarkaðarins og mögulega framtíðarþróun hans, en ný lög munu hafa áhrif á rekstur almennra leigufélaga. Búist er við að leigumarkaður muni stækka þar sem 26% þeirra sem vilja búa í Reykjavík gera ráð fyrir að búa í leiguhúsnæði. Í dag er þetta hlutfall 20%.
Umræður verða á málþinginu í kjölfar kynningar Capacent.
Fjölmörg uppbyggingar og samstarfsverkefni
Málþingið hefst kl. 8.30 með yfirlitskynningu borgarstjóra um íbúðauppbyggingu í Reykjavík og síðan taka við fjölmargar kynningar á uppbyggingar- og samstarfsverkefnum sem nú eru í gangi eða eru að fara af stað:
- Uppbygging á vegum Félags eldri borgara
- Brynjureitur / Hljómalindarreitur
- Hafnartorg
- Stúdentaíbúðir við Háskólann í Reykjavík
- Höfðatorg
- Uppbygging á vegum Búseta
- Almenna íbúðafélagið
- RÚV-reitur
- Byko-reitur
- Elliðabraut 4-12
- Stúdentaíbúðir á vegum FS
- Ráðstöfun á lóðum í Vogabyggð
- Bryggjuhverfi
- Ártúnshöfði – rammaskipulag
- Borgarlínan
Nánar
- Dagskrá málþingsins í heild er á reykjavik.is/ibudir
- Skráning er vel þegin í viðburði á Facebook: Nýjar íbúðir í Reykjavík