Alls tóku 5.272 Reykvíkingar, 16 ára og eldri, þátt í íbúakosningunum Betri hverfi 2014 en í þeim forgangsraða íbúar smærri nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum í hverfum borgarinnar. Kosningaþátttaka var hæst í Hlíðunum, næstmest í Vesturbæ og Grafarholti-Úlfarsárdal. Konur eru alls staðar fleiri í hópi þátttakenda en karlar.
Kosningarnar fóru fram dagana 11.-18.mars og notuð var innskráningarþjónusta island.is til auðkenningar, íslykill eða rafræn skilríki. Var þetta í þriðja sinn sem Reykjavíkurborg stendur fyrir kosningum með þessu sniði. Í kosningunum völdu Reykvíkingar 78 verkefni í hverfum borgarinnar sem koma til framkvæmda á þessu ári og verður 300 milljónum varið til þeirra eins og síðustu tvö ár. Kosningarnar eru bindandi fyrir Reykjavíkurborg.
Kosningaþáttaka var ívið minni en í fyrri kosningum. Í ár var hún 5.7% í heildina en 6.3% í fyrra. Á kjörskrá voru 96.854 íbúar en allir sem voru orðnir 16 ára um áramót og eiga lögheimili í Reykjavík gátu tekið þátt. Hæst þáttökuhlutfall í öllum hverfum er hjá kjósendum á aldrinum 30-50 ára en gera má ráð fyrir að það sé fólkið sem hefur ákveðið fasta búsetu í ákveðnum hverfum og vill helst hafa áhrif á lífsgæði í hverfinu sem það býr í.
Reykjavíkurborg þakkar öllum kjósendum hjartanlega fyrir þátttökuna, ekki síst þeim sem lögðu til hugmyndirnar sem kosið er um en yfir 400 hugmyndir bárust frá íbúum inn á vefinn Betri hverfi 2014 á Betri Reykjavík sem opinn var fyrir innsetningu hugmynda í nóvember á síðasta ári.
Hér má sjá verkefnin sem íbúar völdu í kosningunum: http://reykjavik.is/kjosum-betri-hverfi-2014-urslit-kosninga