Fjölnismenn í handboltanum hafa ekki sagt sitt síðasta orð í einvíginu við Víking um sæti í Olís-deildinni á næsta tímabilinu. Liðið vann í kvöld, 24-23, eftir framlengdan leik, en að loknum venjulega leiktíma var staðan, 22-22.
Þvílíkur leikur sem boðið var upp á, spennan í hámarki en það var Kristján Örn Kristjánsson sem tryggði Fjölni sigurinn tveimur sekúndum fyrir leikslok framlengingar.
Allt ætlaði um koll að keyra en rösklega 700 áhorfendur troðfylltu Dalhúsinu. Það var eins og þakið ætlaði að rifna af Dalhúsum þegar Kristján Örn skoraði. Nú er staðan í einvíginu, 2-2, og hreinn úrslitaleikur um sætið í efstu deild verður háður í Víkinni á fimmtudagskvöld.
,,Það sem fyrst og fremst skóp þennan sigur var frábær markvarsla Ingvars og ennfremur stóð vörnin fyrir sínu. Þessi leikur var engum líkur og við erum staðráðnir í því að fara alla leið. Leikurinn í Víkinni á fimmtudag verður upp á líf og dauða,“ sagði Sveinn Þorgeirsson eftir leikinn.