Markmið Nýtniviku 2015 er að draga úr myndun úrgangs. Lýst er eftir þátttakendum sem hafa áhuga á að standa að viðburðum á Nýtniviku sem verður haldin í Reykjavík vikuna 21. – 29. nóvember 2015.
Markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Þetta er í fjórða sinn sem Nýtnivikan fer fram hér á landi og er þema vikunnar að þessu sinni Afefnisvæðing – að gera meira fyrir minna. Vikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur. Nýtnivikan er hluti af umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar.
Reykjavíkurborg verður eins og áður með viðburði í tilefni Nýtniviku og má þar helst nefna:
- Fatasóunarstefnu Vakanda og Rauða Krossins sem haldin verður í Ráðhúsinu í samstarfi við borgina.
- Kynningu á niðurstöðum forrannsóknar á matarsóun heimila í Reykjavík sem Landvernd hefur unnið í samstarfi við borgina, sem er fyrsta rannsókn þessarar gerðar á Íslandi.
- Fésbókarleik á heimasíðu borgarinnar þar sem leitað er að góðum hugmyndum um hvernig hægt er að lengja líftíma vöru.
- Borgarbókasafn Reykjavíkur mun standa fyrir skiptibókamarkaðinum Græn bók – Góð bók: Endurlestur í vikunni.
- Aðrir aðilar munu einnig standa fyrir atburðum í borginni undir formerkjum vikunnar og má þar nefna fésbókarleik Umhverfisstofnunnar þar sem lögð er áhersla á að gefa upplifun í jólagjöf í stað hluta eins og matarveislu, skógarferð, norðurljósagöngutúr, ferð í fjölskyldu- og húsdýragarðinn, skautaferð.
Lýst er eftir þátttakendum sem hafa áhuga á að standa að viðburðum á Nýtniviku sem tengjast því að koma í veg fyrir sóun. Þátttakendur geta verið fyrirtæki, frjáls félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar. Það sem þarf að gera er að skipuleggja atburð eða aðgerð sem fellur undir verkefnið, senda póst um atburðinn og aðstandendur þess á netfangið nytnivika@reykjavik.is. Skráðir viðburðir verða birtir á vefsíðu Reykjavíkurborgar og evrópsku heimasíðu verkefnisins (http://ewwr.eu/ ) og kynntir ásamt öllum viðburðum vikunnar.
Aðgerðir og atburðir geta meðal annars verið:
- Fræðsla fyrir starfsfólk/birgja/viðskiptavini um fjárhags-, samfélags- eða umhverfislegan kostnað úrgangs og aðgerðir til að draga úr úrgangsmyndun.
- Aðgerðir til að draga úr úrgangi (pappír, plasti, umbúðum o.s.frv.) innan fyrirtækis, stofnunar.
- Verkefni sem miða að því að draga úr úrgangi í framleiðslu vöru eða þjónustu.
- Verkefni sem miða að því að draga úr auðlindanotkun í framleiðslu vöru eða þjónustu.
- Aðgerðir sem snúa að samdrætti í umbúðaúrgangi.
- Verkefni sem ýta undir endurnýtingu og lengja líftíma vöru – t.d. skiptimarkaðir, sala á notuðum vörum, vekja athygli á viðgerðaþjónustu.
Hægt er að nálgast frekari hugmyndir á heimasíðu verkefnisins www.ewwr.eu og hafa samband við nytnivika@reykjavik.is.
Tengill