Þriðja viðureign Fjölnis og Hamars í umspili liðanna um sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik verður háð í íþróttahúsinu í Dalhúsum í kvöld. Staðan í rimmu liðanna er, 1-1, en það lið sem verður fyrr til að vinna þrjá leiki tryggir sæti sæti í hreinum úrslitaleik annað hvort við Val eða Breiðablik sem eigast við í hinni viðureigninni.
Fjölnir leikur án Marques Oliver sem dæmdur var í þriggja leikja bann af aganefnd KKÍ eftir að hafa verið rekinn út úr húsi í þriðja sinn á skömmum tíma. Þetta er eflaust skarð fyrir skildi fyrir Grafarvogsliðið enda hefur Oliver leikið vel með Fjölni síðan hann gekk í raðir liðsins eftir áramót.
Það er mikið í húsi hjá Fjölni í kvöld og skiptir góður stuðningur við liðið miklu máli. Ástæða er því til að fjölmenna og styðja liðið í baráttunni um sæti í efstu deild á næsta tímabili. Leikur Fjölnis og Hamars hefst klukkan 19.15