Sláttur í Reykjavík hófst í byrjun vikunnar og er það nokkrum dögum fyrr en á síðasta ári enda sprettan meiri nú en þá, að sögn Björns Ingvarssonar, deildarstjóra þjónustumiðstöðvar borgarlandsins.
Það eru starfsmenn verktaka sem sinna slætti meðfram þjóðvegum í þéttbýli, svo sem við Hringbraut og Miklubraut, Breiðholtsbraut og Gullinbrú. Hluti sumarstarfsfólks er nú þegar komið til vinnu en fleiri koma til starfa í næstu viku og þá hefst sláttur fyrir alvöru.
Nær 500 hektarar slegnir í hverri umferð
Svæðin meðfram þjóðvegunum er um 118 hektara, sem áætlað er að slegnir verði fjórum sinnum yfir sumarið. Almenningsgarðar, svo sem Laugardalur, Hljómskálagarður, Klambratún, Grundargerði, Austurberg og Seljatjörn eru um 22 hektarar, sem slegnir eru allt að vikulega.
Önnur svæði, svo sem opin svæði í íbúðahverfum og lóðir grunn- og leikskóla eru um 334 hektara sem áætlað er að slá um þrisvar sinnum, en það fer þó eftir sprettu hverju sinni og á hverjum stað.
Í heildina eru þetta um 474 hektarar sem grassláttur tekur til. Hektari er skiki 100 metrar á hlið, þ.e. 10.000 fermetrar og það eru því 4,7 milljónir fermetrar sem slegnir eru margoft á hverju sumri.
Líffræðileg fjölbreytni í náttúrulegri borg
Í sumar á að skoða breytingar á litlum hluta, mögulega 10 – 20 hekturum af þeim 474 sem slegnir eru í dag með því breyta þeim í náttúrulegri svæði . Oft með því að planta trjágróðri og eða öðrum gróðri. Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri segir að með slíkum breytingum sé stoðum rennt undir líffræðilega fjölbreytni, sem geri svæðin sjálfbærari og skapi búsvæði fyrir fugla og aðrar lífverur.
Svæðin sem verða fyrir valinu eru víða um borgina og verða þau valin út frá nokkrum þáttum, einu eða fleirum eftirtalinna:
- jaðarsvæði, oft meðfram umferðaræðum
- svæði sem liggja að náttúrulegum svæðum, auðveldara að stækka og tengja við svæði sem þegar hefur náttúrulegt yfirbragð
- svæði með stakstæðum trjám í grasi, þar er hætta á að sláttutæki skemmi trén
- grassvæði milli trjálunda þar sem má sameina svæði og fá stærri samfelld náttúrulegri svæði
- magur jarðvegur og því gisinn grasvöxtur, í slíkum svæðum er auðveldara að þróa svæðið yfir í náttúrulegt svæði því gras er duglegt í samkeppni
- víðir og ýmiss blómgróður er áberandi í svæðinu, þá er þegar kominn áhugaverður gróður í svæðið
- brattar manir sem eru erfiðar í slætti
Í tillögum sem samþykktar voru í umhverfis- og skipulagsráði er gert ráð fyrir mismunandi aðgerðum allt frá að hætti slætti yfir í að planta trjágróðri og plöntum. Gert er ráð fyrir að svæðunum verði breytt í áföngum og í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af verkefninu.
Meðfylgjandi listi var lagður fram í umhverfis- og skipulagsráði í vetur. Farið verður nokkur þessara svæða strax eða teknir áfangar. Nokkur svæði bíða haustsins þar sem ekki næst að gróðursetja trjágróður fyrr og þá kemur í ljós hversu mörgum svæðum verður breytt á þessu ári.
Sígandi lukka er best og því ágætt að fara hægt af stað og fá reynslu af aðgerðum fyrir framhaldið.