
Nú er nýlokið Norðurlandamóti grunnskóla í skák með nokkuð öruggum sigri skáksveitar Rimaskóla í Grafarvogi sem varði þar með titilinn frá því í fyrra. Mótið fór fram í bænum Hokksund í Noregi og tefldu þar allir meistaraskólar Norðurlandanna. Rimaskóli gerði jafntefli 2-2 við dönsku sveitina í 1. umferð en vann síðan allar aðrar viðureignir með miklum mun. Rimaskóli hlaut 16,5 vinninga af 20 mögulegum en Åby skólinn frá Danmörku fylgdi fast á eftir með 15,5 vinninga. Í þriðja sæti urðu Noregsmeistararnir frá Blokkhaugen með 10 vinninga. Auk þess að vinna mótið fengu tveir liðsmenn Rimaskóla svokölluð borðaverðlaun, þ.e. þeir Oliver Aron Jóhannesson á 2. borði og Jón Trausti Harðarson á 3. borði sem vann allar sínar skákir. Auk þeirra tefldu þau Dagur Ragnarsson og Nansý Davíðsdóttir í liði Norðurlandameistaranna, Hjörvar Steinn Grétarsson var liðstjóri og Helgi Árnason skólastjóri sá um fararstjórn.