Árvekniátakið Plastlaus september hefst í dag 1. september. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um plastmengun og draga almennt úr óþarfa plastnotkun. Þetta kemur fram á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Plastlaus september hvetur okkur til að kaupa minna af einnota plasti og er hægt að velja dag, viku eða allan mánuðinn til að leggja umhverfinu þannig lið.
Gríðarlegt magn af einnota plasti endar í landfyllingum og í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Plast er framleitt úr olíu. Það brotnar niður í smærri einingar eða plastagnir, en það eyðist ekki. Hætta er á að örplast af þessu tagi komist inn í fæðukeðjuna.
Hægt er að fræðast um plastlausan lífsstíl á heimasíðu árvekniátaksins Plastlaus september sem Reykjavíkurborg styrkir ásamt öðrum sveitarfélögum og samtökum.
Borgarbúar eru hvattir til að flokka plast og nýta sér græna tunnu eða grenndargáma í plastlausum september.