Olíumengun er nú sjáanleg í neðanverðum Grafarlæk sem liggur út í Grafarvog. Fólki er ekki talin stafa hætta af olíumenguninni en nokkur sjón- og lyktarmengun er á svæðinu. Fylgst verður vandlega með menguninni áfram. Ekki hefur tekist að finna hvaðan mengunin kemur en starfsmenn Veitna ohf. vinna nú hörðum höndum við að reyna að rekja mengunina. Að mati Slökkviliðsins virðist ekki um mikla olíumengun að ræða.
Þó nokkur olíumengun er nú sjáanleg í neðanverðum Grafarlæk sem liggur út í Grafarvog og má sjá brák í fjörum Grafarvogs meðfram norðurströndinni. Mikil aukning varð á sýnilegri mengun í dag og er það talið vera afleiðing þeirrar miklu úrkomu sem nú er. Vitað er að olíumengun berst í Grafarlæk úr regnvatnsrás og við úrkomuna eykst mjög flæði gegnum rásina og því líklegt að olían sé að skolast út af meiri hraða en áður. Ekki er hægt að útiloka að enn komi mengun frá uppsprettu en sennilegra er um útskolun eldri mengunar frá því á föstudag og laugardag sé að ræða.
Ekki hefur tekist að finna hvaðan mengunin kemur en starfsmenn Veitna ohf. vinna nú hörðum höndum við að reyna að rekja mengunina. Regnvatnsrásin sem liggur út í Grafarlæk tekur við ofanvatni af stóru svæði m.a. öllu Grafarholti og hluta Hálsahverfis og því snúið að rekja mengunina. Mögulegt er að mengunin sé vegna bilaðrar olíuskilju eða rangra tenginga. Þess er óskað að aðilar á þessum svæðum sem meðhöndla olíu athugi hvort olíuskiljur séu ekki í lagi eða hvort mögulegt sé að olíumengun sé að berast með einhverju móti í niðurföll. Allar slíkar upplýsingar flýta fyrir rannsókninni á uppruna mengunarinnar.
Vandlega fylgst með menguninni
Í dag fóru starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og starfsmenn frá skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur ásamt sérfræðingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á vettvang, en Slökkviliðið er viðbragðsaðili þegar kemur að mengunarslysum. Að mati Slökkviliðsins virðist ekki um mikla olíumengun að ræða en hún er allútbreidd á svæðinu og er áberandi og er greinilega enn að berast úr regnvatnsrásinni. Ræddir voru möguleikar á að reyna að hefta útbreiðslu olíunnar þannig að hún berist ekki með Grafarlæk út í fjörur Grafarvogs en til er búnaður sem getur gripið olíu sem virkar best þegar olían er í frekar miklu magni og staðbundin. Var það metið svo að tilraunir til að grípa olíuna væru líklegar til að bera lítinn árangur því olían sem flýtur á yfirborði læksins er á þessu stigi þunn og útbreidd. Enn er verið að skoða hvort raunhæfir hreinsunarmöguleikar séu í stöðunni en ef ekkert er hægt að gera mun olían brotna niður á náttúrulegan hátt en það getur tekið tíma.
Fólki er ekki talin stafa hætta af olíumenguninni en nokkur sjón- og lyktarmengun er á svæðinu og þar sem olía hefur sest í gróður getur hún borist í fatnað. Grafarvogur er mikilvægt náttúrusvæði og þar er auðugt fuglalíf og hafa starfsmenn skrifstofu umhverfisgæða gengið fjörurnar í Grafarvogi og lagt mat á útbreiðslu og þykkt olíunnar. Greinileg svört skán er á grösugum fitjum norðarlega í voginum og á þangi og grjóti. Lítil mengun sást við suðurströndina. Ekki sást til fugla sem virtust hafa orðið fyrir olíumengun í athugunum í gær og í dag en áfram verður fylgst með áhrifum mengunarinnar á fuglalífið. Ef vegfarendur sjá vart við fugla sem virðast illa haldnir vegna olíumengunar er mælt með því að láta starfsfólk skrifstofu umhverfisgæða hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar vita.
Fylgst verður vandlega með menguninni áfram og metið hvort tilefni er til frekari aðgerða eða athugana með tilliti til áhrifa á lífríki.