Mesti snjór í Reykjavík í áratugi. Mokstur gengur vel og hefur verið unnið að því að hreinsa húsagötur alla helgina.
Mokstur á strætum og stígum Reykjavíkur hefur gengið vel í morgun. Gríðarlegt fannfergi var í borginni í morgun og voru öll moksturstæki kölluð út snemma. Var búið að ryðja allar forgangsleiðir um tíuleytið í morgun.
Öll tiltæk tæki vinna nú að mokstri í húsagötum og á göngu- og hjólastígum. Í fyrrinótt snjóaði einnig talsvert og var snjóruðningsfólk borgarinnar vel á veg komið með að ná tökum á því ástandi. Í morgun sást hins vegar hvergi að tekið hefði verið til hendinni í gær því jafnfallinn snjór var víða um 30 sentimetra djúpur. Unnið verður alla helgina að því að ryðja götur, gangstéttir og stíga. Vel viðrar til moksturs og því ætti allt að ganga vel.
Í gærmorgun mældist mesta snjódýpt á landinu í Reykjavík eða 21 sm. Það er ljóst að metin falla því enn meira snjóaði í nótt en í fyrrinótt. Mældist þá mesta snjódýpt í Reykjavík í nóvember síðan 1979 og er hún sú fjórða mesta í Reykjavík frá stofnun Veðurstofu Íslands samkvæmt Sigurði Þór Guðjónssyni veðursagnfræðingi. Það er því ljóst að vetur konungur minnir hressilega á sig þessa dagana þótt veðrið sé einkar fallegt.
Reykjavíkurborg hvetur fólk til að fara varlega í umferðinni í þessari þungu færð og leggja ekki af stað á vanbúnum bílum.