„Engin ástæða er til að óttast breytingar á sorphirðu í Reykjavík, breytingarnar hafa verið undirbúnar faglega af starfsfólki en þær eru tilkomnar vegna aukinnar endurvinnslu hjá borgarbúum,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg.
Engar tilkynningar hafa borist um yfirfullar tunnur eða um önnur vandkvæði. „Reykvíkingar eru mjög ánægðir með þjónustu sorphirðu Reykjavíkur og sú þjónusta verður jafngóð og ódýr og áður,“ segir Eygerður. „Það er aftur á móti óhagkvæmt að losa hálftómar gráar tunnur eftir að íbúar tóku að flokka plastið frá og því var ákveðið að breyta hirðutíðninni.“
Gjöld lækka fyrir gráa tunnu undir blandaðan úrgang með þessari aðgerð. Gjöld árið 2016 á íbúð í Reykjavík eru að jafnaði 26.320 kr. á íbúð á ári sem er sambærilegt og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, en það gera 72 kr. á dag.
Dregur úr úrgangi til urðunar
Helstu nýjungar sem boðið er upp á í Reykjavík felast í grænni tunnu sem er eingöngu ætluð fyrir plast en reynslan sýnir að plastefni taka um það bil 50% af rúmmáli tunna undir blandaðan heimilisúrgang. Ef sambærilegur árangur næst af grænu tunnunni og þeirri bláu mun magnið minnka um 28%. Þessi tilhögun í flokkun úrgangs kallar á breytta hirðutíðni fyrir þær tunnur sem standa borgarbúum til boða. Endurvinnsla plasts eykst við þessa flokkun og magn blandaðs úrgangs sem fer til urðunar minnkar.
Hægt er að skila meira magni af úrgangi en áður með tilkomu 14 daga hirðu og plastsöfnun eða 281 lítrum á viku í stað 253 lítra. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem býður íbúum upp á hirðu á plasti við heimili. Ef ekki er möguleiki á að hafa fleiri tunnur við heimili eða íbúar vilja spara sér sorphirðugjöld geta þeir valið að nýta sér þétt net grenndarstöðva fyrir endurvinnsluefnin.
Reykvíkingar geta valið þjónustu
Sérstaða Reykjavíkurborgar í sorphirðumálum er að íbúar ákveða sjálfir hversu margar tunnur þeir kjósa við heimili sín og greiða samkvæmt því. Margir íbúar velja að skila flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi á grenndar- og endurvinnslustöðvar í stað þess að fá tunnu við heimilið. Þannig geta íbúar borgað einungis 10.800 kr. á ári fyrir spartunnu sem er það lægsta á landinu.
Reykvíkingar geta jafnframt valið að kaupa þjónustu við hirðu á endurvinnsluefnum af einkareknum hirðufyrirtækjum í stað þjónustu borgarinnar. En borgin eina sveitarfélag landsins sem býður íbúum upp á slíkt val. Önnur sveitarfélög innheimta fast gjald fyrir meðhöndlun úrgangs á íbúð en í Reykjavík tekur gjaldið mið af fjölda sorpíláta, hirðutíðni og úrgangsflokkum.
Grá tunna undir blandaðan úrgang er nú tæmd á 14 daga fresti að jafnaði. Það er í samræmi við hirðutíðni í flestum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en fjögur af sex sveitarfélögunum eru með 14 daga hirðu á gráu tunnunni og þrjú þeirra hirða bláu tunnuna á 28 daga fresti.
Blá tunna fyrir pappír er nú tæmd á 21 daga fresti að jafnaði í stað 20 daga áður.
Græn tunna undir plast verður einnig losuð á 21 daga fresti í stað 28 daga eins og verið hefur.
Leiðir til að lækka gjöld
Ef lítið magn af úrgangi fellur til hafa íbúar í sérbýli val um að panta spartunnu undir blandaðan úrgang og geta þannig lækkað gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Hún er grá og tekur helmingi minna magn eða 120 lítra í stað 240 lítra eins og hefðbundin tunna og er tæmd á 14 daga fresti að jafnaði eins og sú gráa.
Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri gjöld. Oft má fækka gráum tunnum í fjölbýlishúsum þar sem tunnur eru samnýttar og getur þá skapast svigrúm til að fá grænar og bláar tunnu undir endurvinnslusefni.
Íbúar geta haft samband hafi þeir fyrirspurnir um hirðu í síma 411 1111 eða sent tölvupóst á netfangið sorphirda@reykjavik.is. Frekari upplýsingar um tunnur sem standa íbúum í Reykjavík til boða er að finna á síðunni www.ekkirusl.is.