Gengið frá samningum við lykilmenn meistaraflokks kvenna Fjölnis
Knattspyrnudeild Fjölnis gekk í gær frá samningum við nokkra lykilleikmenn meistaraflokks kvenna hjá félaginu og gilda þeir til tveggja ára. Leikmennirnir sem um ræðir eru Kristjana Þráinsdóttir, Katrín Arnardóttir, Oddný Arnardóttir, Ásta Sigrún Friðriksdóttir, Regína Einarsdóttir og Tinna Þorsteinsdóttir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá liðinu.
Fjölnisliðið hefur verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár og hefur á að skipa reyndum leikmönnum í bland við unga og efnilega sem nær allir eru uppaldir hjá félaginu. Fjölnir hefur verið í hörkubaráttu síðustu tímabil um að komast upp í úrvalsdeild og er stefnan sett á að taka næsta skref á komandi leiktíð. Þá eru æ fleiri leikmenn félagsins sem rata inn á æfingar hjá yngri landsliðunum og nokkrir þeirra sem hafa spilað fyrir Íslands hönd svo ljóst að framtíðin er björt í Grafarvogi.
Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Fjölnisliðsins síðustu ár, gekk til liðs við úrvalsdeildarlið Breiðabliks fyrir skemmstu en Sigurður Víðisson, þjálfari Fjölnisliðsins, er bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir breytingar á liðinu:
,,Nú er búið að ganga frá samningamálum flestra okkar lykilleikmanna og er ég bjartsýnn fyrir komandi tímabil. Vissulega verða breytingar hjá okkur, Sonný fyrirliði hefur ákveðið að freista gæfunnar í úrvalsdeild á næsta tímabili og er gengin til liðs við Breiðablik. Þetta er vissulega mikil blóðtaka fyrir okkur, frábær markvörður og okkar markahæsti leikmaður síðasta sumar. Við óskum henni alls hins besta og tökum vel á móti henni þegar hún kemur aftur heim. Margir ungir leikmenn okkar hafa fengið að spreyta sig á landsliðsæfingum síðustu vikurnar og staðið sig vel,“ sagði Sigurður Víðisson.