Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kemur heim til Íslands í dag, mánudaginn 4. júlí, eftir frækilegan árangur í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Af því tilefni er boðið til fagnaðarfundar íslensku þjóðarinnar með landsliðshópnum í miðbæ Reykjavíkur.
Landsliðið mun aka í opinni rútu frá Skólavörðuholti um kl. 19:00 í virðingarfylgd lögreglu, niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Arnarhóli. Þar fer fram hátíðardagskrá og verður landsliðshópurinn hylltur fyrir frammistöðu sína.
Landsmenn eru hvattir til að taka þátt og fagna landsliðinu á leiðinni niður Skólavörðustíg og Bankastræti og fjölmenna á Arnarhól. Að ósk lögreglu er fólki bent á að nota almenningssamgöngur, leggja bílum sínum í bílastæðahús eða í hæfilegri fjarlægð frá hátíðarsvæðinu til að greiða fyrir umferð. Bein útsending verður í Sjónvarpi Símans og á RÚV frá kl. 18:30 og verður útsendingunni einnig varpað á skjá við Arnarhól.
Forsætisráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, mun fyrir hönd íslensku þjóðarinnar ávarpa landsliðið á sviðinu við Arnarhól. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, verður viðstaddur athöfnina. Fjölbreytt skemmtiatriði verða á Arnarhóli en meðal þeirra sem fram koma eru Friðrik Dór og Erna Hrönn sem leiðir fjöldasöng.
Skemmtidagskráin verður á sviðinu við Arnarhól frá kl. 18:30.
Eftirfarandi aðilar standa að fögnuðinum:
Forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg og bakhjarlar EM-torgsins og landsliðsins: KSÍ, Síminn, Borgun, Coca-Cola, Icelandair, Íslenskar getraunir, Landsbankinn og N1.
Nánari upplýsingar veita verkefnisstjórar:
Guðjón Guðmundsson í síma: 666 0330
Gunnar Lár Gunnarsson í síma: 690 6999
Hér er kort sem sýnir götulokanir á hátíðarsvæðinu í miðbænum milli klukkan 16:00 og 23:00 í dag, 4. júlí.