Grafarvogsdagurinn 28.maí 2016 – Gerum okkur glaðan dag!

Grafarvogsdagurinn 2016Grafarvogsdagurinn, hverfishátíð Grafarvogsbúa, fer nú fram í 19. sinn laugardaginn 28. maí.Sem fyrr er markmið dagsins að sameina íbúa hverfisins og skapa vettvang til að hittast og gera sér glaðan dag.

Vel hefur tekist að virkja þann mikla mannauð sem býr í hverfinu og mun fjöldinn allur af einstaklingum, fyrirtækjum, og félögum leggja hönd á plóg við að gera dagskrá dagsins sem glæsilegasta.
Helstu dagskrársvæðin að þessu sinni verða í og við Egilshöll, Korpúlfsstaði, Spöng og á svæðinu vestan megin við Strandveg en þar munu Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Skemmtigarðurinn,
Íslenska Gámafélagið og SORPA bjóða til viðamikillar dagskrár. Auk þess verður skemmtidagskrá í Íþróttamiðstöðinni Dalhúsum og í verslun Krumma við Gylfaflöt. Ástæða er til þess að vekja athygli á skemmtilegum skottmarkaði sem fer fram á bílastæðinu við Spöngina frá 13:00- 16:00. Enn er hægt að slást í hópinn og taka þátt í að skapa líflega markaðsstemningu á svæðinu.

Á skottmarkaði er heimilisbíllinn notaður sem sölubás og getur fólk selt allt á milli himins og jarðar úr bílskottum sínum. Það kostar ekkert að taka þátt en mikilvægt er að áhugasamir skrái sig með
tölvupósti á netfangið valdi@reykjavik.is. Undirbúningur hátíðahaldanna er í höndum Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, en verkefnið er samstarfsverkefni fjölda félaga, fyrirtækja, einstaklinga og stofnana í Grafarvogi.

Mikil vinna hefur verið lögð í dagskrárundirbúning og nú er komið að íbúum hverfisins að taka virkan þátt í því sem boðið verður upp á. Fjölmörg fyrirtæki í hverfinu styðja rausnarlega við bakið á verkefninu og eru þeim hér með færðar sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag.

Gerum okkur glaðan dag á laugardaginn!

Skoða dagskrá hérna……

 

skottsala2016-450pix