Fjölnir vann góðan sigur á Selfyssingum í 1. deild karla í handknattleik í Dalhúsum í gærkvöldi. Fjölnir leiddi framan af fyrri hálfleik og höfðu um tíma fjögurra marka forystu. Gestirnir komust á ný inn í leikinn og jöfnuðu metin fyrir hálfleik, 14-14, og þannig stóðu leikar í leikhléi.
Útlitið var ekki gott þegar Selfyssingar náðu þriggja marka forystu í síðari hálfleik en Grafarvogspiltar voru ekki af baki dottnir, jöfnuðu leikinn og tryggðu sér að lokum þriggja marka sigur, 28-25.
Markahæstir í liði Fjölnis voru Björgvin Páll Rúnarsson og Kristján Örn Kristjánsson með átta mörk hvor.
Stjarnan tryggði sér sæti í Olís-deildinni á næsta tímabili með sigri á ÍH. Stjarnan er með 36 stig í efsta sætinu en Fjölnir og Selfoss eru í næstu sætum með 32 stig. Þar á eftir koma Þróttur og HK. Fjölnir, Selfoss, Þróttur og HK fara nú í umspil um sæti í Olís-deildinni.