Fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 12. mars 2025
https://reykjavik.is/fundargerdir/umhverfis-og-skipulagsrad-fundur-nr-335
Sjá undir lið 5:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka enn og aftur þá afstöðu sína að óviðunandi sé að svokallað húsnæðisátak í Grafarvogi verði þvingað fram á forsendum ofurþéttingarstefnu vinstri flokkanna. Slíkar hugmyndir þarf að útfæra í góðri sátt við íbúa viðkomandi hverfa. Varðandi Grafarvog þarf t.d. að taka ríkt tillit til staðaranda hverfisins og hagsmuna núverandi íbúa, t.d. með því að ganga ekki á græn svæði sem mörg hver eru rótgróin og ein helsta ástæða þess að fólk hefur valið hverfið til búsetu. Ljóst er að margir þeir þéttingarreitir, sem kynnt hefur verið að séu til skoðunar í Grafarvogi, ganga gegn þessum sjónarmiðum og koma því ekki til greina að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í mörgum tillögum er gert ráð fyrir meiri miklum þéttleika byggðar og of fáum bílastæðum. Slíkt skipulag myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á lífsgæði þeirra íbúa, sem fyrir eru, til hins verra. Samráð við Grafarvogsbúa hefur verið takmarkað í málinu og tillögurnar mætt mikilli andstöðu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá afstöðu sína að rétt væri að tillögurnar yrðu dregnar til baka í heild sinni en þess gætt í framtíðinni að auka samráð við íbúa hverfisins varðandi viðamiklar breytingar á skipulagi.