Það var aldeilis líf í tuskunum á páskaskákæfingu Fjölnis sem um leið var keppni um tvö laus sæti á úrslitakeppni Barnablitz 2017. Barnablitzið er eftirsóknarverður hliðarviðburður á Reykjavík Open í Hörpunni og fer úrslitakeppnin fram sunnudaginn 23. apríl.
Páskaskákæfingin stóð undir nafni því að allir þátttakendur fengu að gjöf páskaegg og flest verðlaun voru líka páskaegg. Það voru rúmlega 40 börn á aldrinum 6 – 16 ára sem sóttu æfinguna og var þeim skipt upp í þrjá hópa. Mest var undir í Barnablitz-hópnum þar sem hart var barist um tvö laus sæti í úrslitum.
Þegar upp var staðið í jafnri keppni þá reyndist Arnór Gunnlaugsson Fjölni einn efstur en í 2. – 3. sæti komu jafnir í mark þeir Anton Breki Óskarsson Fjölni og Kristján Dagur Jónsson TR sem vann Anton Breka í síðustu umferð.
Til að skera úr um síðara sætið í úrslitakeppni Barnablitz þá þurftu þeir Anton Breki og Kristján Dagur að tefla tveggja skáka einvígi. Þar unnu þeir sitt hvora skákina með hvítu og varð þá að koma á bráðabana þar sem Kristján Dagur hafði hvítt og einni mínútu minni tíma eins og algengast er í slíkum tilfellum. Þar náði Kristján Dagur að leggja Anton Breka og tryggja sér sætið.
Tveir jafnir keppendur sem lögðu mikið á sig í baráttunni og stóðu sveittir upp frá taflborðinu. Þeir Arnór og Kristján Dagur eru verðugir fulltrúar ungra skákmanna á mótinu. Arnór vakti mikla athygli á Íslandsmóti grunnskólasveita fyrir stuttu þar sem hann í sveit Rimaskóla vann til borðaverðlauna og lagði alla sterkustu andstæðinga sína að velli.
Kristján Dagur hefur verið afar virkur í barna-og unglingastarfi TR og náði frábærum árangri sl. haust á alþjóðlega skákmótinu Västerås Open í Svíþjóð þar sem hann hækkaði um 70 stig. Skákæfingar Fjölnis halda áfram eftir páskaleyfi á miðvikudögum kl. 16.30 en vetrarstarfinu lýkur laugardaginn 29. apríl með glæsilegu Sumarskákmóti Fjölnis á Barnamenningarhátíð 2017.
Mótið verður opið öllum skákáhugamönnum á grunnskólaaldri. Þar verða rúmlega 20 áhugaverðir vinningar í boði og lýst kjöri á afreksmanni-og æfingameistara Skákdeildar Fjölnis 2016 – 2017.