Fjörgyn og BUGL gegnum árin.

Fyrstu tónleikar Fjörgynjar til stuðnings BUGL voru í nóvember 2003. Í ár höldum við þrettándu tónleikana fimmtudaginn 12.nóvember í Grafarvogskirkju.
Eftir tónleikana 2003 mátti lesa í Morgunblaðinu eftirfarandi

“Víkverji fór á ljúfa tónleika í Grafarvogskirkju í síðustu viku. Þar voru saman komnir á tólfta hundrað gestir til styrktar barna- og unglingageðdeild Landsspítala háskólasjúkrahúss sem Lionsklúbburinn Fjörgyn stóð fyrir. Og þvílík stemmning. Söngvarar eins og KK og Ellen Kristjánsdóttir, Bubbi, Bergþór Pálsson, Páll Óskar og Páll Rósinkrans höfðu lag á að hrífa kirkjugesti með sér og sumir fengu þá með í söng. Og Gospelkór Reykjavíkur var sérkapítuli. Þvílík túlkun og kórfélagarnir gáfu sig alla í sönginn. Og að fá að vera sjálfur þátttakandi í þessum rúmlega þúsund manna kór kirkjugesta sem söng laglínur eins og Lífið er dásamlegt og He’s got the whole world in his hand var hreint út sagt stórkostlegt. Víkverja finnst þetta frábær fjáröflunarleið. Hann kann miklu betur að meta þessa leið að fá að velja hvort hann langar á tónleika eða ekki í stað þess að fá símtöl á matartíma þar sem geisladiskur er boðinn til sölu eða annar varningur til styrktar góðum málefnum. Þessi fjáröflunarleið hitti í mark. “

Öll árin hafa tónleikagestir fyllt Grafarvogskirkju en núna er hámarksfjöldi um 700 gestir en 2003 troðfylltist kirkjan og var setið í öllum gluggakistum.
Afrakstur tónleikanna hefur verið varið í fjölda verkefna. Þeirra stærst er afhending tveggja bifreiða 2008 og nú aftur 2015 og rekstur þeirra. Minni bifreiðin er mikið notuð þegar starfsfólk BUGL fer í heimsóknir til fjölskyldna skjólstæðinga sinna. Starfsfólk BUGL leggur til og er með í ákvörðun á verkefnum sem söfnunarfé er varið í. Meðal verkefna má nefna: ljósritunarvél, fartölvur, iPad tölvur, skjávarpar, sýningartjöld, garðhúsgögn, kaffivél, leiktæki, sjónvarp, videotökuvél ásamt klippibúnaði og annar búnaður í viðtalsherbergi sérfræðinga við skjólstæðinga BUGL.

Þegar við afhentum bílana á BUGL var tekið viðtal við mig um starf okkar þar og tónleikana. Fjölmiðladeild spitalans hefur gert stutt myndband úr því.

Myndbandið frá afhendingu er hérna

 

 

Fjörgyn_tónleikar_2015AA