Fjölnir tók forystuna í einvíginu við Skallagrím um sæti í Dominosdeildinni í körfuknattleik í Dalhúsum í gærkvöldi. Eftir æsispennandi lokakafla fögnuðu Fjölnismenn sigri, 102-101, en það var Colin Pryor sem skoraði sigurkörfuna í leiknum þegar skammt var til leiksloka. Staðan í einvígi liðanna er, 2-1, fyrir Fjölni en það lið sem vinnur þrjá leiki ávinnur sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.
Colin Pryor var stigahæstur hjá Fjölni og skoraði 30 stig og Róbert Sigurðsson skoraði 20 stig.
Fjórða viðureign liðanna verður í Borgarnesi á laugardaginn kemur klukkan 16. Þá gæti ráðist hvort Fjölnir fer upp í efstu deild. Ef til fimmta leiks kemur verður hann háður í Dalhúsum 26. apríl klukkan 19.30.