Fjölnir tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Geysisbikars karla í körfubolta með óvæntum 106:100-sigri á Keflavík á heimavelli. Keflavík er í öðru sæti Dominos-deildarinnar með 22 stig en Fjölnir í neðsta sæti með aðeins tvö stig.
Fjölnismenn voru yfir stærstan hluta leiks og var staðan í hálfleik 50:43. Fjölnismenn náðu mest 15 stiga forskoti en staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 75:73, Fjölni í vil. Tókst Keflavík aldrei að jafna í lokaleikhlutanum.
Srdan Stojanovic átti stórleik fyrir Fjölni og skoraði 35 stig og Viktor Moses bætti við 23 stigum. Dominykas Milka skoraði 28 fyrir Keflavík og Hörður Axel Vilhjálmsson gerði 22 stig.
Ríkjandi meistarar Stjörnunnar eru einnig komnir í undanúrslit eftir 78:65-sigur á Val á heimavelli. Valsmenn byrjuðu betur og voru með 15:11-forskot eftir fyrsta leikhlutann.
Staðan í hálfleik var 35:34 Stjörnunni í vil og voru meistararnir sterkari í seinni hálfleik. Nikolas Tomsick skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna, eins og Philip Alawoya fyrir Val.
Hægt að skoða tölfræði frá leiknum hérna……