Rimaskóli heldur áfram að láta að sér kveða á grunnskólaskákmótum og nú í byrjun aðventu, sunnudaginn 3. des. urðu þau einstöku úrslit á Jólaskákmóti grunnskóla Reykjavíkur að skáksveitir Rimaskóla urðu í þremur efstu sætum mótsins í keppnni 4. – 7. bekkjar af þeim 22 skáksveitum sem þátt tóku í mótinu.
A sveit Rimaskóla sigraði örugglega með 20 vinninga af 24 mögulegum. Stúlknasveit Rimaskóla, stelpur í 5. og 6. bekk, sýndi það og sannaði að skákin höfðar ekki síður til stelpna og þessar efnilegu skákstelpur náðu 2. sæti. B sveit Rimaskóla varð síðan í 3. sæti. Verðlaunin sem veitt voru á mótinu fóru öll til Rimaskóla. Fyrr um morguninn höfðu nemendur í 1. – 3. bekk keppt á jólaskákmótinu og þar lentu báðar skáksveitir Rimaskóla í verðlaunasætum, stelpurnar í 1. sæti stúlkna og blandaða sveitin í 3. sæti mótsins. Það eru þeir Helgi Árnason skólastjóri og Björn Ívar Karlsson skákkennari sem halda utan um skákstarf skólans og hefur áhuginn líkast til aldrei verið meiri en núna enda skákin einstaklega skemmtileg hugaríþrótt ef vel er að henni staðið.
Aðalmynd :1616 Jólaskákmeistarar grunnskóla Reykjavíkur 2017 eru fjórir bekkjarbræður í 7-EH: Kjartan Gunnar, Anton Breki, Arnór og Joshua
Mynd: 1612 Jólaskákmeistarar grunnskóla stúlkur eru: Batel 5-IMF, Sara Sólveig 5-IMF, Embla Sólrún 6-HS og Eva Björg 5-EDG