Á hinu fjölmenna og glæsilega Sumarskákmóti Fjölnis á Barnamenningarhátíð var tilkynnt um hvaða skákmenn væru útnefndir afreksmeistari og æfingameistari skákdeildarinnar á skákæfingum vetrarins sem nú er lokið.
Þetta er árlegur viðburður hjá skákdeildinni. Margir tilnefndir en aðeins tveir útnefndir. Afreksmeistari æfingatímabilið 2016 – 2017 er Arnór Gunnlaugsson 6. bekk Rimaskóla sem tefldi til úrslita á Barnablitz skákmótinu í Hörpunni og fékk borðaverðlaun á Íslandsmóti grunnskólasveita 2017.
Æfingameistari skákdeildarinnar er Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir 6. bekk Foldaskóla sem er núverandi Íslandsmeistari stúlkna, 13 ára og yngri. Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis afhenti þeim Arnóri og Ylfu Ýr veglega bikara sem Rótarýklúbbur Grafarvogs gaf af þessu tilefni.