3. fl. karla félagsins eru Íslandsmeistarar! Liðið vann í dag 4-1 sigur á Breiðblik á Extra vellinum í úrslitaleik Íslandsmótsins fyrir framan töluverðan fjölda áhorfenda og kórónaði þar með frábært tímabil flokksins.
Til að stikla á stóru og rétt til að setja árangurinn og tímabilið í samhengi þá varð A-liðið Reykjavíkurmeistari með fullt hús stiga og markatöluna 74-4, sigruðu síðan A-deildina með markatöluna 56-16 og unnu jafnframt bikarúrslitaleikinn í þarsíðustu viku 6-0 gegn Stjörnunni.
Þessir strákar eru því Reykjavíkur-, bikar- og Íslandsmeistarar.
Þá stóð B-liðið sig einnig frábærlega og fór alla leið í úrslitaleik Íslandsmótsins þar sem þeir biðu lægri hlut fyrir KA í framlengdum leik fyrir norðan. Það sýnir bæði breidd og gæði flokksins.
Knattspyrnudeildin óskar öllum leikmönnum og þjálfurum flokksins, þeim Gunnari Haukssyni, Arnari Páli Garðarssyni og Halli Hallsyni, innilega til hamingju með árangur tímabilsins.