Haustið 2012 skrifaði undirritaður greinar um Reykjavíkurflugvöll og Sundabraut og birtust þær í Verktækni, blaði verk- og tæknifræðinga.Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og vegna breyttra forsendna leyfi ég mér að rifja upp tillögur mínar varðandi þessi tvö stóru samgöngumál og fjallar þessi grein mín um 1. áfanga Sundabrautar.
Nýlegar ákvarðanirSundabrautin er stórt samgöngumál fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið og fullgerð verður hún samgöngubót fyrir allt landið. Síðan ég skrifaði greinina um Sundabraut haustið 2012 hefur tvennt gerst sem styrkir tillögu mína:Sú lega 1. áfanga Sundabrautar um Kleppsvík sem ég taldi heppilega þá er staðfest í nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.Innanríkisráðherra hefur sett af stað vinnu við að Sundabraut verði að hluta til byggð sem einkaframkvæmd og að þar verði sett á veggjöld.
Botngöng og kostnaðurÍ tillögu minni um 1. áfanga Sundabrautar nefndi ég eftirfarandi sem helstu forsendur og hlutverk framkvæmdarinnar:Að fá aðra tengingu yfir Elliðavoginn til að tengja saman austur- og vesturhluta Reykjavíkur. Ártúnsbrekkan er að verða umferðarþung og hún ein dugar ekki til langframa og stórslys þar væri afdrifaríkt.Tengingin væri í fyrstu aðallega hugsuð fyrir Grafarvogshverfið (hverfið notar þá Ártúnsbrekkuna minna og því léttir á henni) og síðar fyrir umferð frá Gufunesi og Geldinganesi og loks væri leiðin hluti af nýrri tengingu við Vestur- og Norðurland.Tengingin væri frá Sæbraut sunnan við Klepp og niður á Vogabakka (um 400 m), síðan áfram niður í 800 m löng botngöng og þaðan að Strandvegi gegnt Rimaflöt (um 1.000 m), samtals um 2,4 km (sjá meðfylgjandi drög leiðarinnar).Botngöngin væru fjögurra akreina vegur með hönnunarhraða t.d. 80 km/klst. (leyfilegur hraði 70 km/klst.) og gætu þau annað allt að 40 þús. bílum á sólarhring.Hér er áætlað að umferðin fyrstu árin verði 15-20 þúsund bílar á sólarhring.Ístak og undirritaður hafa gróft áætlað að botngöngin sjálf og rampar upp á yfirborð kosti um 12-15 milljarða króna (tæpur einn km leiðarinnar af samtals 2,4 km).Miðað við dæmið 16 þús. bílar/sólarhring og 150 kr. veggjald fyrir ferðina fást í tekjur tæpar 900 milljónir kr./ári sem standa undir ca. 14 milljarða króna fjárfestingaláni til 25 ára. Ef/þegar umferðin nær 25 þús. bílum/sólarhring ætti veggjaldið að lækka í 100 kr. ferðin. Hér eru veggjöldin að borga botngöng Sundabrautar og ekki aðra vegagerð á leiðinni.
Botngöng eða hábrúMeð þessari grein fylgja tvær teikningar af því hvernig lega 1. áfanga nýrrar Sundabrautar gæti verið. Samkvæmt nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur verður Sundabraut annaðhvort lögð um Kleppsvíkina með hárri brú eða botngöngum, þarna verður ekki lágbrú vegna siglinga að Vogabakka. Skoða þarf mjög vel hvort sé betra og ódýrara: að byggja hábrú eða botngöng, en undirritaður telur að botngöng séu ódýrari og betri hvað varðar umferðarskipulag og umhverfismál.Ef botngöng verða byggð, er mikilvægt vegna kostnaðar að byggja þau áður en Vogabakkinn verður byggður austan Kleppsspítala því núna er þar svæði laust sem athafnasvæði fyrir byggingu botngangaeininga sem væri svo fleytt á réttan stað í Kleppsvíkina. Líklega koma botngöng ekki til greina vegna kostnaðar og erfiðleika í framkvæmd eftir að stækkaður Vogabakki verður kominn í gagnið.
Grafarvogsbúar eiga völina og kvölinaHvort svona framkvæmd og veggjöld á leiðinni verði að veruleika byggist á því hvort Grafarvogsbúar séu sáttir við framkvæmdina og noti sér vegstyttinguna og tímasparnaðinn. Grafarvogsbúar sem sækja vinnu og önnur erindi til vesturs á svæði við Miklubraut og norðan og vestan hennar væru að stytta sína leið um 2-6 km og miðað við að aksturstengdur kostnaður bifreiðar sé 40 kr./km eru þeir að spara bæði peninga og tíma með því að fara nýja leið um Kleppsvík. Þess vegna legg ég til að Grafarvogsbúar svari eftirfarandi: Hvort viljið þið fá fljótlega 1. áfanga Sundabrautar þar sem þið greiðið 100-150 kr. í veggjald fyrir ferðina og sparið samsvarandi í aksturskostnaði eða viljið þið bíða í 10 til 20 ár eftir Sundabraut með tilheyrandi kostnaði og tímatöfum?Samantekið í stuttu máli má segja að þverun Kleppsvíkur eins og hér er lýst kosti ekki neitt, framkvæmdin væri kostuð með peningum sem núna fara í aksturstengdan kostnað Grafarvogsbúa.Sjá grein í Verktækni haustið 2012:http://www.vfi.is/utgafa/verktaekni/
>> Hvort svona framkvæmd og veggjöld á leiðinni verði að veruleika byggist á því hvort Grafarvogsbúar séu sáttir við framkvæmdina og noti sér vegstyttinguna og tímasparnaðinn.
Bjarni Gunnarsson