Skákheimsókn í KORPU áður en skellt verður í lás

Nú á síðustu metrum skólastarfs í Kelduskóla KORPU sem borgaryfirvöld ætla sér að leggja niður og loka, mættu félagar frá Skákdeild Fjölnis í heimsókn og efndu til skákhátíðar meðal allra nemenda skólans. 

Helgi Árnason formaður skákdeildarinnar kynnti blómlega skákstarfsemi í Grafarvogi og nemendur fengu að reyna sig við í fjöltefli við Dag Ragnarsson skákmeistara í Fjölni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Dagur náð býsna langt á skákferlinum allt frá því að hann varð NM meistari með skáksveit Rimaskóla í nokkur skipti. Erlingur Þorsteinsson stjórnarmaður skákdeildarinnar var Degi til aðstoðar við fjölteflið. 

Krakkarnir í KORPU sýndu skákinni mikinn áhuga og höfðu reglulega gaman af þessari stuttu heimsókn og kynningu. Auk fjölteflis var efnt til skákmóts þar sem flestir nemendur voru að tefla með klukku í fyrsta skipti. Kelduskóli KORPA er einn fámennasti grunnskóli Reykjavíkurborgar en býr við kjöraðstæður hvað húsnæði og búnað snertir. Skynsamlegra hefði e.t.v. verið að þétta byggðina í norðurhluta Grafarvogs þar sem rými og skólaaðstaða er til staðar ólíkt því sem er að finna í pökkuðum miðbæ. 


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.