Nýtt útibú Íslandsbanka var opnað á Höfðabakka 9 í síðustu viku þegar útibú Íslandsbanka við Gullinbrú, í Hraunbæ og Mosfellsbæ sameinuðust í eitt útibú. Húsnæðið, sem er hluti af gamla Tækniháskólanum, hefur verið endurnýjað. Lögð er áhersla á gott aðgengi fyrir viðskiptavini en nýja útibúið liggur nálægt stórum umferðaræðum og er í 5 til 15 mínútna akstursfjarlægð frá öllum hverfum höfuðborgarinnar. Þá verða næg bílastæði hjá nýja útibúinu.
Í útibúinu á Höfðabakka eru 23 reynslumiklir starfsmenn. Markmið sameiningarinnar er að bjóða upp á öflugt útibú í austurhluta höfuðborgarinnar sem veitir bæði fyrirtækjum og einstaklingum fyrirmyndar fjármálaþjónustu. Sameiningin er einnig liður í að auka hagræði í rekstri útibúanets Íslandsbanka en bankinn rekur 19 útibú eftir sameininguna.
Útibússtjóri hins nýja sameinaða útibús er Ólafur Ólafsson, áður útibússtjóri við Gullinbrú, aðstoðarútibússtjóri er Karen Rúnarsdóttir, áður útibússtjóri í Mosfellsbæ og Ýlfa Proppe Einarsdóttir, fyrrverandi útibússtjóri í Hraunbæ, er viðskiptastjóri einstaklinga. Viðskiptavinir munu halda reikningsnúmerum sínum við sameininguna.
Ólafur Ólafsson útibústjóri segir opnunarvikuna hafa gengið frábærlega vel og breytingin jákvæð í alla staði. Í nýju útibúi er samankomin mikil þekking og reynsla starfsmanna allra þriggja útibúanna á nýjum stað.
Þetta kemur fram m.a. í viðtali við Ólaf Ólafsson, útibústjóra, á myndskeiðinu hér fyrir neðan.