Niðurskurðarhnífnum beitt í Grafarvog

Niðurskurðarhnífnum beitt í Grafarvog

Aftur er verið að gera atlögu að skólunum okkar hér í Grafarvogi. Það á að loka einum af grunnskólunum okkar og færa börn á milli þriggja annara skóla. Þessar aðgerðir snerta því 820 börn. Fyrstu fréttir um þessi áform komu í mars á þessu ári og síðan þá hafa foreldrar og nemendur stöðugt verið að senda okkur borgarfulltrúum pósta og óska eftir því að þessari ákvörðun verði ekki framfylgt. Það hafa margar hugmyndir komið fram sem miða að því að halda núverandi skólum opnum, allar hafa þær þó verið slegnar út af borðinu af meirihlutanum. Þar á meðal tillaga sem var lögð fram í borgarstjórn um það að leikskólinn og grunnskólinn myndu verða reknir undir sama þaki í Staðahverfinu líkt og á að gera í Skerjafirði og Vogabyggð.

Stærstu breytingar sem gerðar hafa verið í skólamálum

Aldrei hefur verið farið í jafn viðamiklar breytingar á einu bretti vegna grunnskóla í Reykjavík. Þar má einnig nefna að aldrei áður hefur grunnskóla verið lokað í íbúðahverfi án þess að önnur sambærileg þjónusta hafi komið í staðinn. Til stendur að loka Kelduskóla Korpu sem staðsettur er í Staðahverfi. Þar eru í dag börn frá 1. til 7. bekkjar.  Síðan á að breyta Kelduskóla- Vík í unglingaskóla, nú eru þar börn frá 1. til 10. bekkjar.  Börn úr borgarhverfinu og engjahverfi fá að stunda nám upp í 7. bekk í sínum hverfisskóla og síðan þá fara þau í Kelduskóla Vík. Þetta rót hefur áhrif á 820 börn á grunnskólaaldri í norðanverðum Grafarvogi.

200 milljónir í sparnað

Það er ólíðandi að ætla að spara 200 milljónir á ári með því að loka skóla. Stærsti útgjaldaliður skóla- og frístundasviðs er launaliðurinn og ef ekki á að reka starfsfólk hvernig er þá hægt að spara 200 milljónir á ári? Húsnæðið verður á sínum stað það þarf viðhald þó svo ekki sé starfsemi í því. Börnin munu ekki gufa upp og halda áfram að kosta borgina peninga. Er þá sparnaðurinn falinn í því að segja upp ræstingarfólki ? Stjórnenda kostnaður mun aukast því það á að ráða þrjá skólastjóra í stað tveggja sem eru yfir fjórum byggingum núna. Skólar munu aldrei verða hagnaðardrifnar einingar og því er þetta tal um sparnað óábyrgt sér í lagi þegar meirihlutinn fékk falleinkunn fyrir að veita ekki nægu fjármagni til skóla- og frístundasviðs. Enda skólarnir nánast allir að reka sig í mínus ár eftir ár. Það þekkja það allir sem fylgjast með skólastarfi að þar er ekki verið að bruðla með peninga enda nýtni og útsjónarsemi mikil hjá stjórnendum.

Samstaða allra íbúa í Grafarvogi mikilvæg

Það er gríðarlega mikilvægt að allir íbúar í Grafarvogi standi saman og reyni að stoppa þessar breytingar. Hér er verið að setja fordæmi sem ekki er gott. Enda skólarnir inni á gildandi deiliskipulagi. Það er því verið að brjóta sem þessari ákvörðun. Skýrsla innriendurskoðunar segir síðan skýrt að Hamraskóli sé næst dýrasti skólinn í Reykjavík á eftir Kelduskóla – Korpu. Það er því mikilvægt að við sýnum samstöðu fyrir öll börn í Grafarvogi.

Frábært og faglegt starf

Það er hlutverk okkar kjörinna fulltrúa að sýna ráðdeild í rekstri og velta við öllum steinum til þess að ná fram sparnaði. Eins og þau fjölmörgu framúrkeyrslu dæmi sem hafa komið upp síðan að núverandi meirihluti tók til starfa þá hefði mér þótt eðlilegt að byrja að spara í öðru en í lögbundnum verkefnum fyrir börnin okkar.

Skólastarf í norðanverðum Grafarvogi er frábært, þar er unnið gríðarlega faglegt starf innan skólanna. Starf sem er verðlaunað. Frístunda og félagsstarf er með því besta sem þekkist í Reykjavík. Þarna ætlar meirihlutinn að spara. Spara þar sem vel er unnið, skólastarf er svo miklu meira en bara krónur og aurar.

Er ekki eðlilegt að við krefjumst þess að skólarnir okkar fái að starfa áfram og þess í stað verði sparað í verkefnum sem ekki eru lögbundinn hjá sveitarfélaginu. Enda mjög mikilvægt að hafa skóla í nærumhverfi barna, skólinn er hjartað í hverju hverfi.

Valgerður Sigurðardóttir

Valgerður Sigurðardóttir

Íbúi í Grafarvogi og borgarfulltrúi

Um höfundinn

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.