Frábær þátttaka var á Sumarskákmóti Fjölnis í Rimaskóla þar sem 75 efnilegir skáksnillingar á grunnskólaaldri fögnuðu sumrinu við skákborðið.

Rótarýklúbbur Grafarvogs gaf líkt og áður alla verðlaunagripi á sumarskákmótið en alla vinninga og glaðning gáfu Hagkaup, EmmEss, Pizzan, Bókabúð Grafarvogs, CoCo´s tískuverslun og Ekran.
Vegna fjölda þátttakenda og sóttvarnatakmarkanna var keppendum skipt á tvö svæði. Stúlknaflokkurinn alls 30 skádrottningar tefldi í fjölnýtistofu á meðan að 45 drengir kepptu í hátíðarsal skólans í eldri og yngri flokki.
Flestir þátttakendur voru frá Skákdeild Fjölnis en á meðal strákanna voru allir sterkustu skákmenn TR og Breiðabliks mættir.
Rimaskólastelpur hafa aldrei verið fjölmennari né beittari við skákborðið en núna í vetur og kom það greinilega í ljós á sumarskákmótinu þegar þær þær lentu í 10 af 11 efstu sætunum. Fjölnisstrákar höfðu minna að gera í gestina frá TR og Breiðablik og urðu að gefa þeim eftir efstu sætin.
Þeir Eiríkur Emil Hákonarson í eldri flokk og Kamil Roman Klimaszewski í yngri flokk stóðu sig best af Fjölnisstrákum en þær Hrafndís Karen Óskarsdóttir og Emilía Embla B. Berglindardóttir í hópi stúlkna.
Allir keppendur sem voru á aldrinum 6 – 16 ára gengu glaðir út í sumarið að loknu velheppnuðu skákmóti

)