Um þessi áramót verða brennur á tíu stöðum í Reykjavík, eins og verið hefur undanfarin ár. Umsjón með þeim er ýmist á hendi borgarinnar eða félagasamtaka, sem huga vel að því sem sett er á brennurnar og tryggja að frágangur sé í lagi.
Á Grafarvogssvæðinu ef svo má segja verða tvær brennur, önnur við Geirsnef og hin í Gufunesi við gömlu öskuhaugana. Um er að ræða stórar brennur á báðum þessum stöðum. Eldur verður borinn að köstunum kl. 20:30 á gamlárskvöld á öllum stöðum nema einum, en á Úlfarsfelli, á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna, er tendrað kl. 14:30 um daginn.
Fólk er hvatt til að skjóta ekki upp flugeldum við brennurnar. Stjörnuljós og blys eru betri kostur enda barnvænni og hættuminni. Flugeldar og tertur eru betur geymd heima.
Byrjað verður að taka á móti efni á kestina föstudaginn 27. desember. Best er að fá hreint timbur á brennurnar. Stærstur hluti þess sem fer á brennurnar eru vörubretti en einnig er fenginn afgangur af jólatréssölunni. Plast, gúmmí og unnið timbur á ekki erindi í köstinn.
Starfsmenn hverfastöðva Reykjavíkurborgar verða á vettvangi við flestar brennurnar og leiðbeina þeim sem koma með efni. Hætt verður að taka á móti efni þegar brennurnar eru orðnar hæfilega stórar eða í síðasta lagi kl. 12:00 á gamlársdag.