Glæsileg upplestrarhátíð 2020 í Grafarvogskirkju

Gígja Björk Jóhannsdóttir í 7. bekk Rimaskóla bar sigur úr bítum þegar 14 nemendur í 7. bekk, úr öllum grunnskólum Grafarvogs og Kjalarness, lásu til úrslita í Stóru upplestrarkeppninni 2020. Keppnin fór að venju fram í Grafarvogskirkju að viðstöddu fjölmenni. Í öðru sæti keppninnar varð Hugrún Björk Ásgeirsdóttir Foldaskóla og Snævar Steffensen Valdimarsson Húsaskóla hreppti þriðja sætið.

Fjórtán nemendur úr 7.bekk í Grafarvogi og Kjalarnesi lásu til úrslita.

Allir 14 keppendurnir höfðu unnið sér sæti í úrslitakeppninni með góðum árangri innan síns skóla. Krakkarnir komu allir vel undirbúnir og héldu athygli áheyrenda með lestri á skemmtilegum söguköflum úr sögu Birkis Blæs Ingólfssonar „Stormsker – fólkið sem fangaði vindinn“, ljóðum Jóns úr Vör og sjálfvöldum ljóðum. Inn á milli lestrarlota var boðið upp á tónlistaratriði sem nemendur Skólahljómsveitar Grafravogs, þær Elísabet Hauksdóttir, Helga María Harðardóttir og Þyrí ágústsdóttir, léku við undirleik Einars Jónssonar skólastjóra. 

Hugrún Björk Ásgeirsdóttir, Gígja Björk Jóhannsdóttir, Snævar Steffensen Valdimarsson

Formaður dómnefndar, Björk Einisdóttir tilkynnti úrslit dómnefndar og hrósaði um leið öllum flytjendum fyrir góða frammistöðu. „Þið eruð öll  sigurvegarar með því að komast svona langt í keppninni“ sagði Björk í upphafi ræðu sinnar. Verðlaunahafarnir þrír fengu vegleg peningaverðlaun að launum. Allir þátttakendur fengu afhenta bókargjöf frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, fallega rós og gjafabréf frá Gullnesti. Umsjón með stóru upplestrarkeppninni í Grafarvogi hafði Fjalar Freyr Einarsson kennsluráðgjafi í Miðgarði.


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.