99% barna í 10.bekk á Facebook

Upplýsingar halda áfram að streyma úr síðustu SAFT könnun. Vissuð þið að 99% barna í 10. bekk eru á facebook? Og að stelpur eru líklegri en strákar til að vera með öryggisstillingar í lagi? Þetta og margt fleira í SAFT könnun 2013.

Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga.

Þegar börn og unglingar í 4.-10. bekk grunnskóla voru spurð hvort þau væru með eigin síðu/prófíl á samskiptasíðum eins og Facebook eða Twitter sögðust tæplega 78% vera á Facebook og rúm 13% með á Twitter. Fimmtungur sagðist ekki vera á síðum eins og Facebook eða Twitter.

Nánast öll þeirra barna/unglinga sem eru með á Twitter eru líka með síðu á Facebook. Eftir því sem börnin eru eldri eru þau líklegri til að vera á Facebook eða Twitter. Tæplega þriðjungur nemenda í 4. bekk sagðist vera með Facebook síðu en 99% barna í 10. bekk. Eins eykst vinafjöldi á Facebook með aldri meðal þeirra sem eru á Facebook. Fjórðungur barna í 10. bekk er á Twitter en nær enginn í 4. og 5. bekk.

Stelpur líklegri en strákar til að vera með öryggisstillingar í lagi
Meirihluti þeirra barna sem eru á Facebook sagði síðuna vera lokaða, þ.e. að aðeins vinir gætu skoðað. Tæpur þriðjungur sagði síðuna vera að hluta til lokaða þ.e. að aðeins vinir vina og vinir gætu skoðað. Tæplega 13% sögðu síðuna vera alveg opna þ.e. að allir geti skoðað. Þegar svörin eru greind eftir kyni má sjá marktækan mun á svörum stráka og stelpna og benda niðurstöður til þess að stelpur séu varkárari en strákar þegar kemur að því að stilla síðuna. Strákar eru líklegri en stelpur til að vera með facebook síðuna alveg opna þannig að allir geti skoðað.

Börn gefa upp rangan aldur til að komast hjá aldurstakmörkum á Facebook
Þegar kemur að upplýsingum sem börn gefa upp um sig á prófílnum sínum er algengast að börn gefi upp mynd sem sýnir greinilega andlit þeirra (88,8%) og nafn (83,6%). Um 65% gefa upp í hvaða skóla þau eru og tæp 45% raunverulegan aldur sinn. Um 39% gefa upp aldur sem ekki er raunverulegur aldur þeirra. Líklegra er að yngri börn gefi upp rangan aldur en eldri börn enda uppfylla þau ekki aldurstakmörk Facebook. Töluvert færri gefa upp símanúmer (16,3%) eða heimilisfang (10,3%) .

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.