Tiltektarhelgi í Reykjavík dagana 10. – 11. maí

Hreinsun

Vinnuvélar frá borginni hafa verið að hreinsa göturnar síðustu vikur en nú er vænst eftir að borgarbúar taki til hendinni um næstu helgi.

Reykjavíkurborg hvetur fólk og fyrirtæki til að taka til í sínu nánasta umhverfi um næstu helgi, 10.- 11. maí. Markmiðið er að hreinsa borgina af rusli og gera skínandi fína fyrir sumarið. Hægt er fá poka undir ruslið á næstu Olísstöð.

Tiltektarhelgi er liður í vorverkum Reykjavíkurborgar og verður hún nú haldin 10. og 11. maí. Reykvíkingar eru hvattir til að taka til hendinni í hverfum sínum, hvort sem er á eigin vegum eða í skipulögðum hópum. Starfsfólk hverfastöðva Reykjavíkurborgar mun sækja pokana strax eftir helgi þar sem þeim hefur verið komið haganlega fyrir í götum.

Allir sem vettlingi geta valdið geta tekið þátt í tiltektinni, fjölskyldur, vinnuhópar eða húsfélög og íbúasamtök. Tiltektarhelgin felst í því að hreinsa burt rusl sem finna má í runnum, í garðinum heima, á leikvöllum eða opnum svæðum og gangstéttum. Ekki er um garðaúrgang að ræða heldur einungis rusl. Íbúar eru hvattir til að koma pappír, skilagjaldskyldum drykkjarumbúðum og öðrum endurvinnanlegum efnum til endurvinnslu. Garðaúrgang fer fólk með sjálft á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Tiltektarhelgin er mikilvægur liður í því að fegra borgina, verkefnið er gott fyrir borgarbúa og skapar betra viðmót gagnvart gestum borgarinnar. Það er góður vitnisburður þegar sagt er að Reykjavíkurborg sé hrein borg.

Reykjavíkurborg leggur metnað sinn í að borgin verði hrein og fín í sumar. Vonir standa til að íbúar í hverfum og við hverja húsagötu taki saman höndum og hreinsi burt ruslið sem nú hefur komið í ljós eftir veturinn. Kjörið er að senda ljósmyndir á Facebook síðu Reykjavíkurborgar, jafnvel af völdum stöðum fyrir hreinsun og eftir. Hægt er að sækja sér svartan ruslapoka á Olísstöðvar. Starfsfólk Reykjavíkurborgar ætlar að sýna gott fordæmi í vikunni og hreinsa á völdum stöðum í borgarlandinu.

Jón Gnarr borgarstjóri hefur hvatt starfsfólk borgarinnar til að taka þátt í hreinsuninni og mun sjálfur fara út og taka til hendinni. Borgin hvetur einnig fyrirtæki og stofnanir í Reykjavík til að skjótast út hluta úr degi og hreinsa í nágrenninu og skutla ruslinu í SORPU.

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.